Seðlabankar í Bandaríkjunum og Evrópu hafa tekið höndum saman og skorið upp herrör gegn þeim áhrifum sem lausafjárkreppan hefur haft á lánamarkaði en undanfarið hafa skammtímavextir hækkað mjög á millibankamarkaði. Í morgunkorni Glitnis segir að Seðlabankar Bandaríkjanna, Evrópu, Kanada og Sviss auk Englandsbanka hafi kynnt aðgerðir sínar í gær en þeim er ætlað að draga úr lausafjárþurrð og draga úr háum skammtímavöxtum.

Seðlabanki Bandaríkjanna kastar út línu

Í Morgunkorninu segir að aðgerðir seðlabankanna snúa meðal annars að því að auka aðgengi að skammtímalánsfé með lánalínum sín á milli sem mun gera bönkum utan Norður-Ameríku auðveldara að taka lán í dollurum. Seðlabanki Bandaríkjanna mun í þessum tilgangi bjóða út samtals 24 milljarða Bandaríkjadali í fjórum útboðum til innlendra og erlendra banka. Fyrsta útboðið verður 17. desember næstkomandi og það síðasta 28.janúar. Þá munu bankarnir opna fyrir gjaldmiðlaskiptasamninga á nýjan leik en slíkir samningar hafa ekki sést síðan 11. september 2001.

Ánægja með framtak seðlabankanna

Markaðir tóku vel í framtak seðlabankanna og gáfu grænt ljós á þessar aðgerðir en við tilkynninguna í gær varð viðsnúningur á mörkuðum, samkvæmt því sem segir í Morgunkorninu. Hækkanirnar gengu þó að hluta til baka eftir því sem leið á daginn. Hrollur hefur verið á mörkuðum eftir stýrivaxtatilkynningu Seðlabanka Bandaríkjanna. Af viðbrögðum markaða að dæma var lækkun vaxta um 0,25 prósentustig ekki nægilega mikil. Aðgerðirnar nú sýna hinsvegar svo ekki verður um villst að seðlabankarnir gera sér grein fyrir hversu alvarlegt ástandið er á fjármálamörkuðum í kjölfar lausafjárkreppunnar og að þeir hyggjast leggja lóð sín á vogarskálarnar í þeim efnum, eins og segir í Morgunkorni Glitnis.