Seðlabanki Bandaríkjanna hefur ákveðið að halda stýrivöxtum við núllið, eða í 0-0,25%, eins og þeir hafa verið frá því í desember sl. Seðlabankinn hefur auk þess að halda vöxtum í lágmarki dælt hundruðum milljarða dala inn á fjármálamarkaðinn til að örva hagkerfið í versta samdrætti síðustu áratuga, að því er segir í frétt Reuters.

Þar segir einnig að fram hafi komið hjá Seðlabankanum að hagkerfið sé að ná stöðugleika eftir 20 mánaða samdrátt. Bankinn tilkynnti einnig að hann hygðist draga úr kaupum á ríkisskuldabréfum og að hann gerði ráð fyrir að þeim uppkaupum lyki í lok október. Bankinn hóf að kaupa ríkisskuldabréfin í mars eftir að hann hafði lækkað vextina en vildi auka peningamagn frekar til að styðja við efnahagslífið.