Seðlabanki Evrópu segir að verndarstefna sé farin að láta á sér kræla á ný og að hún ógni alþjóðahagkerfinu. Þetta kemur fram í mánaðarriti bankans, að sögn WSJ .

Í riti bankans segir að slæmt alþjóðlegt efnahagsástand og vaxandi atvinnuleysi geti freistað stjórnvalda til að taka upp verndarstefnu í viðskiptum, sem geti leitt til samskonar aðgerða stjórnvalda í öðrum löndum. Afleiðingin geti orðið meiri spenna á milli ríkja.

17 af 20 stærstu ríkjunum hafa gripið til verndaraðgerða

Ríkisstjórnir hafa að sögn WSJ þakkað sér að  hafa forðast mistökin sem gerð voru í kjölfar samdráttarins sem fylgdi falli á hlutabréfamörkuðum árið 1929. Þá hafi verndaraðgerðir valdið því að samdráttur hafi orðið að kreppu.

Á fundi G20 í nóvember í fyrra hétu stjórnvöld þessara stærstu efnahagsvelda heims því að grípa ekki til verndaraðgerða. Seðlabanki Evrópu vísar hins vegar í rannsóknir sem sýni að 17 af þessum 20 ríkisstjórnum hafi eftir það kynnt verndaraðgerðir, að því er segir í frétt WSJ.