Ásgeir Jónsson, forstöðumaður greiningardeildar Arion banka, segir augljóst hvers vegna fjárfestar hafi stundað hér vaxtamunaviðskipti fyrir hrun. „Þessi tegund fjárfesta leitar í hagkerfi þar sem vaxtamun er að finna,“ segir hann.

Í síðustu viku hélt Ásgeir Daníelsson, hagfræðingur hjá Seðlabanka Íslands, fyrirlestur um þá gagnrýni sem peningastefna Seðlabankans fyrir hrun hefur hlotið. Þar sagði hann að rannsóknir bendi ekki til að samband sé á milli gengishækkunar og vaxtamunar við útlönd. Þá sagði hann að ekki væri hægt að greina að bankinn hafi tekið tillit til gengisins við vaxtaákvarðanir.

Ásgeir Jónsson segir að bankinn hafi tvisvar brugðist við gengisfalli krónunnar með hækkun vaxta. Það hafi bæði verið gert árið 2006 og 2008. „Bankinn hafði því þá skoðun sjálfur að hærri vextir leiði til styrkingar krónunnar.“