Bankastjórn Seðlabanka Íslands hefur ákveðið að hækka stýrivexti bankans um 0,5 prósentur frá og með næsta uppboði á endurhverfum lánssamningum við lánastofnanir sem fram fer 6. júlí n.k. Eftir breytinguna verða stýrivextir Seðlabankans 6,25%.

Vaxtahækkunin kom ekki á óvert en markaðsaðilar á fjármálamarkaði hafa búist við vaxtahækkun síðasta verðbólgumæling birtist um miðjan júní. Þar komu fram vísbendingar um vaxandi verðbólguþrýsting.

Í frétt frá Seðlabankanum um vaxtahækkunina kemur fram að í ársfjórðungsriti bankans, Peningamálum, sem gefin voru út 1. júní sl. Hafi komið fram að horfur í efnahags- og peningamálum gætu gefið tilefni til meiri hækkunar vaxta en þá var tilkynnt. Því mætti búast við að bankinn hækkaði stýrivexti sína fljótlega aftur nema nýjar upplýsingar gæfu sterkar vísbendingar um betri verðbólguhorfur.
Að sögn Seðlabankans gefur framvindan undanfarnar vikur ekki tilefni til að hverfa frá áformum um frekara aðhald í peningamálum. Bankinn bendir á að verðbólga jókst í júní og er nú nálægt efri þolmörkum verðbólgumarkmiðsins og hugsanlegt er að hún muni tímabundið rjúfa þau.

Sérstaklega tekur Seðlabankinn fram að vísbendingar gefi til kynna að innlend eftirspurn vaxi hratt um þessar mundir. Til dæmis jókst einkaneysla á fyrsta fjórðungi ársins um 8% frá fyrra ári og vísbendingar eru um áframhaldandi öran vöxt á öðrum ársfjórðungi.