Birgir Örn Birgisson hafði ekki komið að rekstri matsölufyrirtækis áður en hann tók við stjórnartaumunum hjá Dominos í kjölfar eigendaskipta árið 2011. Þvert á móti hafði hann unnið lengst af í farsímageiranum erlendis.

„Ég kláraði hagfræðinámið mitt og fór að vinna skömmu síðar hjá farsímafyrirtækinu Strax. Ég fer út í byrjun árs 1997 með konunni minni, Sunnu Sigurðardóttur, til Miami þar sem Ingvi Týr Tómasson var að setja upp fyrirtækið í samstarfi við Óla Anton Bieltvedt sem var staðsettur í Hong Kong. Þeir höfðu fengið þá hugmynd að selja fylgihluti í farsíma til Suður-Ameríku. Enginn okkar talaði sérstaklega góða spænsku og þegar ég kem þarna út skoða ég lagerinn og hann var 127 farsímabatterí. Þannig byrjaði þetta hjá okkur. Þetta var keyrt áfram á mikilli vinnu og seiglu en rekstrarpeningur var af skornum skammti. Það leið langur tími þar til við gátum farið að greiða okkur sjálfum regluleg mánaðarlaun, heldur var launum úthlutað þegar hægt var,“ segir Birgir Örn.

„Þetta byggðist smám sama upp og þegar ég fer til Englands árið 2001 og tek við Evrópu-skrifstofunni var veltan orðin um tveir milljarðar króna í Norður- og Suður-Ameríku. Við erum í Englandi til ársins 2006 þegar Strax kaupir fyrirtæki í Þýskalandi. Þá var veltan hjá okkur í Evrópu að nálgast 10 milljarða króna.“