*

þriðjudagur, 11. ágúst 2020
Innlent 2. maí 2020 12:01

Seldi á háu verði og keypti á lágu

Bjarni Ákason seldi sig út úr Apple umboðinu í Skandinavíu, keypti sig aftur inn, og seldi svo aftur, en hélt íslenska hlutanum.

Höskuldur Marselíusarson
Bjarni Ákason átti lengi Apple umboðið á Íslandi, Epli, en hefur nú fært sig yfir í stóreldhúsin. Bjarni hefur ákveðnar skoðanir á rekstri íslenskra fyrirtækja enda staðið lengi sjálfur í því að reka fyrirtæki.

Bjarni Ákason, stofnandi og fyrrverandi eigandi Eplis og núverandi framkvæmdastjóri og aðaleigandi heildsölunnar Bako Ísberg, viðurkennir alveg að verkefnastaðan væri eflaust allt önnur ef hann væri enn í tæknigeiranum. „Ég hef nú stundum saknað hans og ég hringi þá í gömlu félagana í Epli, það er allt annar bransi," segir Bjarni.

„Sell high, buy low"

„Ég var búinn að vera í Apple ansi lengi, eða frá 1996 þegar ballið byrjar hjá þeim og þegar allt gekk vel fer ég og blæs til sóknar eins og svo margir gerðu á þessum tíma og stofna félag í Danmörku sem gekk mjög vel. Síðan fer ég til Svíþjóðar en á endanum kaupum við félag sem var skráð á norska markaðinn og þá hófst heljarinnar vinna við að samþætta þetta allt, enda allir með sín tölvukerfi og svona, en það gekk allt mjög vel. Þarna var ég kominn með stöndugt félag, Humac, með mörgum hluthöfum og fannst hlutverki mínu lokið svo ég sel þá minn 30% hlut þarna árið 2007," segir Bjarni sem viðurkennir að tímasetningi hafi verið góð.

„Já, var ekki einhver sem sagði „Sell high, buy low". Þarna var ég kominn í frí og þá kemur hrun og þá báðu þeir sem áttu enn félagið mig hvort ég gæti hjálpað því þarna kom í ljós að félagið var alveg komið niður á hnén, auk þess sem það var rugl á bönkunum sem vildu bara setja félagið á hausinn. Svo ég samdi við skiptastjórann um að hafa þetta opið í þrjá daga, annars færu nærri 300 manns á atvinnuleysisbætur í Skandinavíu og tókst mér að bjarga félaginu. Ég ætlaði í það skipti bara að vera inni í svona þrjú ár, en þau urðu níu. Þá hafði ég reyndar selt skandinavíska hluta starfseminnar til rússneskra aðila, en hélt íslenska hlutanum og breytti nafninu í Epli og var bara að dúlla mér í því, þangað til mér fannst ég vera kominn með nóg og sel þá félagið til Guðna Eiríkssonar."

Bjarni seldi meirihluta eignarhluta síns í Epli árið 2016 og restina árið eftir. Hann keypti síðan meirihlutann í Bako Ísberg í byrjun síðasta árs, en félagið selur búnað og þjónustu fyrir stóreldhús ýmiss konar, bæði veitingahúsageirann sem farið hefur illa út úr áhrifum kórónuveirufaraldursins en líka til mötuneyta, fyrirtækja og stofnana.

„Þetta leit vel út þegar ég kaupi þetta félag, þó að ýmislegt hafi nú komið í ljós við áreiðanleikakönnun, en svo fór náttúrulega Wow air á hausinn sem hafði veruleg áhrif. Það var mikill kostnaður og fita í félaginu sem hefur gengið verulega á með hagræðingunni sem ég hef gert. Ég er orðinn nokkur sterkur þar því ég byrjaði á því að skera heilmikið niður, svo ég þarf ekki að gera það núna. Ég fór í alla kostnaðarliði, launakostnað og annað, minnkaði líka við mig húsnæðið en margt af því kemur ekki að fullu fram fyrr en á þessu ári þar sem ég losna ekki undan mörgum samningum fyrr en núna einmitt um mitt árið."

Í ársreikningi Bako Ísberg síðasta árið sést einmitt að þrátt fyrir ríflega fimmtungstekjusamdrátt, úr 768,3 milljónum í 603,5 milljónir milli áranna 2018 og 2019 þá drógust rekstrargjöldin saman um ríflega fjórðung, úr tæplega 787 milljónum króna í 587,8 milljónir króna. Þannig fór reksturinn úr tæplega 18,7 milljóna króna tapi í ríflega 9,3 milljóna króna hagnað milli áranna. Eigið fé félagsins ríflega þrefaldaðist, úr 21,6 milljón í 70,7 milljónir, meðan skuldirnar helminguðust, úr 235,9 milljónum í 120 milljónir svo heildareignirnar drógust saman um fjórðung, úr 257,5 milljónum í 191 milljón, þannig að eiginfjárhlutfallið fór úr 8,4% í 37,2%.

Spurður hvort hann hafi einhver rekstrarráð eftir öll sín ár í fyrirtækjarekstri segir hann vera vandamál í íslenskum fyrirtækjum að efnahagsreikningarnir eru allt of bólgnir. „Birgðum og kröfum er haldið of lengi uppi. Ég skil ekki af hverju menn gera þetta, hvort það sé fyrir bankann, eða hvað það er, ég hef alltaf hugsað þetta akkúrat öfugt, afskrifa strax ef birgðirnar eru slæmar og ekki láta þær liggja og sama með kröfur sem ekki er hægt að framfylgja, taka þær niður strax. Síðan tók ég alla innviði í gegn, skipti um tölvukerfin og allt það, en það er erfitt að vera háður einum bransa á þessum litla markaði, því ef hann fer niður þá togast allt annað niður með honum," segir Bjarni.

„Ég hef hins vegar byggt upp mín fyrirtæki á því að eiga afskriftarsjóði ef það koma áföll eins og við erum að sjá fram á núna, og því eigum við fyrir þeim. Fyrst hélt ég reyndar að þetta yrðu bara tveir stífir mánuðir, en nú er maður farinn að sjá að þetta verður ekki þannig, heldur tekur eflaust töluverðan tíma til að ástandið komist í sama horf. Til dæmis verða eflaust margir veitingastaðir sem opna ekki aftur. Vissulega verður alltaf endurnýjun á þessum markaði, en það mun fækka þeim aðilum sem eru að keppa í veitingarekstrinum og þá er markaðurinn fyrir vörur okkar að minnka. Þá er eins gott að að fyrirtækið standi traustum fótum."

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta gerst áskrifendur hér.