Fjárfestingarfélagið Eyrir Invest seldi í dag 3,8% hlut í Marel á genginu 142 krónur á hlut. Þetta jafngildir 28 milljón hlutum í Marel, að því er fram kemur í flöggun til Kauphallarinnar. Söluandvirðið nemur tæpum 4 milljörðum króna. Á sama tíma hefur félagið gert tilboð í skuldabréfaflokkinn Eyri 11 1 og stefnir að afskráningu þeirra í kjölfar uppkaupa. Eyrir Invest á eftir viðskiptin 29,3% hlut í Marel.

Fram kemur í tilkynningu frá stjórn Eyris að viðskiptin í dag styrki enn frekar við fjárhagsstöðu féalgsins og auki sveigjanleika í rekstri þess. Í tilkynningunni segir ennfremur að andvirðið af sölu Marel-bréfanna verði notað til að greiða allar skuldbindingar Eyris Invest sem eru á gjalddaga á næstu tveimur árum.

Færðu gjalddaga til 2018

Eyrir Invest tapaði 14,5 milljónum evra í fyrra, jafnvirði rúmra 2,3 milljarða íslenskra króna. Eignir félagið námu um síðustu áramót 370 milljónum evra, jafnvirði 58,5 milljörðum króna, og námu skuldir á móti um 198 milljónum evra, jafnvirði 31,3 milljörðum króna. Fram kemur í ársreikningi Eyris að á þessu ári eru á gjalddaga 24,9 milljónir evra og á næsta ári 137,9 milljónir evra eða samtals upp á tæpa 26 milljarða króna

Í febrúar á þessu ári tilkynnti svo Eyrir Invest að samhliða sölu á hlutabréfum upp á 2,8 milljarða króna í hlutafjáraukningu hafi félagið tryggt sér framlengingu á meginhluta langtímalána með samningum við núverandi viðskiptabanka félagsins. Eftir framlenginguna eru um 85% af lánum félagsins með gjalddaga höfuðstóls á árunum 2015-2018.