WOM, fjarskiptafyrirtæki í Chile í eigu Novator, fjárfestingafélags Björgólfs Thors Björgólfssonar, vinnur að því að selja 3.800 sendistöðvar þar í landi.

Söluverðið er 930 milljónir dollara, tæplega 130 milljarða króna. 2.334 sendistöðvar voru seldar strax en 1.466 til viðbótar fram til ársins 2024, en hluti kaupverðsins verður greiddur þegar frekari afhending sendistöðva fer fram.

Kaupandinn var bandaríska fjárfestingafélagið Phoenix Tower International en það mun eftir kaupin eiga um 22.000 sendistöðvar í 19 löndum, þar af fjölda ríkja í Mið- og Suður-Ameríku, þar með talið fjögur stærstu fjarskiptafyrirtækin í Chile. Vænta má þess að WOM leigi sendistöðvarnar aftur af kaupandanum.

Salan á við fjórfaldan rekstrarhagnað

Samkvæmt lánshæfismati Moody‘s á WOM í Chile námu árstekjur félagsins um 612 milljörðum pesóa á síðasta ári, um 670 milljónum dollara miðað við núverandi gengi eða um 92 milljörðum íslenskra króna.

Þá var aðlagaður rekstrarhagnaður fyrir afskriftir (EBITDA) hjá WOM í Chile um 184 milljarðar pesóa eða um 28 milljarðar íslenskra króna miðað við núverandi gengi. Því nemur innviðasalan til Phoenix Tower um fjórfölduðum aðlöguðum EBITDA rekstrarhagnaði félagsins á síðasta ári.

Fréttin er hluti af lengri umfjöllun í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins.