Kýpverjar verða að selja megnið af gullforða seðlabanka landsins til að greiða fyrir því að alþjóðastofnanir verði viljugar til að rétta fram hjálparhönd og greiða fyrir björgunarlán þeirra. Þetta er mat framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins sem telur að stjórnvöld á Kýpur þurfi að selja gull fyrir um 400 milljónir evra, jafnvirði 62 milljarða íslenskra króna. Kýpverjar bíða eftir 10 milljarða evra láni vegna fjárhagsvanda stærstu banka landsins.

Breska ríkisútvarpið ( BBC ) segir Kýpverja eiga 13,9 tonn af gulli. Fari stjórnvöld eftir því sem framkvæmdastjórinin telur nauðsynlegt munu aðeins 3,5 tonn af gulli verða eftir á Kýpur.

BBC bendir á að þrátt fyrir umsvifamiklar og dýrar björgunaraðgerðir til að forða Kýpur frá því að fara í þrot þá sé útlit fyrir að hagkerfi landsins dragist saman um 8,7% á þessu ári.