Bjarnheiður Hallsdóttir, formaður Samtaka ferðaþjónustunnar, telur að marka þurfi heildarstefnu fyrir ferðaþjónustuna. Í tengslum við þá umræðu hefur komið upp sú hugmynd að stofna nýtt ráðuneyti sem atvinnugreinin myndi í heild falla undir.

Spurð um hvort hún sé hlynnt stofnun slíks ráðuneytis, segir Bjarnheiður að hún hafi áður verið hlynnt þeirri hugmynd. En eftir að hún hafi tekið við sem formaður SAF og kynnst stjórnsýslunni betur, hafi hún skipt um skoðun.

„Það eru margir sem halda því fram að þetta sé besta lausnin. Það er þó svo að ferðaþjónustan er mjög víðtæk atvinnugrein sem fer inn á marga málaflokka sem dreifast niður á mörg ráðuneyti. Það er því trúlega ekki lausn að stofna sérstakt ráðuneyti utan um atvinnugreinina og alls ekki víst að það myndi breyta neinu í sjálfu sér. Það er þó mjög jákvætt skref að fyrir rúmu ári var skrifstofa ferðamála sett á laggirnar innan atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins. Þá var Stjórnstöð ferðamála stofnuð árið 2016, en þar var myndaður samstarfsvettvangur Samtaka ferðaþjónustunnar og stjórnvalda um málefni greinarinnar. Á vettvangi Stjórnstöðvar ferðamála er verið að vinna að brýnum úrlausnarefnum er snerta ferðaþjónustuna. Undanfarin ár hefur ferðaþjónusta sem atvinnugrein þannig verið að fá aukna áheyrn hjá stjórnvöldum.“

Innviðir hafa verið vanræktir

Hafa innviðir landsins verið vanræktir, þá til dæmis vegakerfið og aðstaða á ferðamannastöðum, meðan ferðamenn hafa streymt hingað til lands?

„Já, ég get tekið heilshugar undir það. Eins og allir landsmenn vita hefur vegakerfið sem dæmi verið algjörlega vanrækt síðan árið 2008. Vegirnir bera einfaldlega ekki þá umferð sem fer um þá núna. Það er alltof mikið af einbreiðum brúm, vegirnir eru alltof mjóir og margir hverjir handónýtir. Innviðirnir á ferðamannastöðum hafa einnig verið vanræktir. Við erum núna bara að hreinsa upp það sem þegar var komið í óefni. Við erum ekki ennþá komin á þann stað að við séum að hugsa langt fram í tímann og gera ráðstafanir fyrirfram . Ég vona þó að við séum að komast þangað. Það eru teikn á lofti um að hugsunarhátturinn sé aðeins farinn að breytast, þannig að við séum ekki bara að bregðast við vandræðum, eins og gert hefur verið undanfarin ár. En þrátt fyrir þetta má segja okkur landsmönnum til hróss hvað gestirnir okkar eru ánægðir. Þrátt fyrir allt hefur okkur tekist að tryggja ánægju gesta okkar. Við Íslendingar erum mjög góðir í þessum reddingum og erum sannarlega góðir gestgjafar. Við erum með 95% ánægða viðskiptavini, sem er frábær árangur og segir ýmislegt um hve góða hluti íslensk ferðaþjónustufyrirtæki eru að gera,“ segir Bjarnheiður.

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta gerst áskrifendur hér .