Tap varð af rekstri Olíverslunar Íslands, Olís, í fyrra um 66 milljónir króna. Eignir samstæðunnar í árslok voru metnar á um 16,5 milljarða og skuldir voru um 15,1 milljarður. Skuldir höfðu þá lækkað frá árinu áður frá því að vera um 16,2 milljarðar.

Greint er frá því í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins að endurskipulagning á félaginu er á lokastigi hjá Landsbankanum. Samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins eru aðilar tengdir Samherja og Kaupfélagi Skagfirðinga meðal þeirra sem koma með nýtt hlutafé inn í félagið.

Tap á árinu 2009 var um 430 milljónir króna. Viðskiptablaðið fjallaði um stöðu Olís fyrr á árinu, þegar ársreikningur 2010 lá fyrir. Í ársreikningi fyrir það ár kemur fram að „sérstakt endurmat“ hafi verið gert á fastafjármunum Olís í árslok 2008 og 2009. Það mat leiddi til hækkunar á bókfærðu virði um samtals 4,2 milljarða króna. Í árslok 2010 var síðan framkvæmt virðisrýrnunarpróf sem leiddi til lækkunar á því mati um 288 milljónir króna.

Olís hefur skilað tapi síðustu þrjú rekstrarár. Mest var tapið 2008 þegar það nam tæplega sex milljörðum. Þá var greiddur um 625 milljóna króna arður til eigenda vegna ársins á undan. Hagnaðurinn þá, á árinu 2007, nam 1,1 milljarði. Arður vegna reksturs ársins 2006 nam 650 milljónum.

Nánar er fjallað um málið í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér að ofan undir liðnum Tölublöð.