Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins, segir að mjög umtalað viðtal sem birtist við hann í Fréttatímanum hafi ekki verið það viðtal sem hann fékk til yfirlesturs fyrir birtingu. Í pistli á vefsíðu sinni segir hann að eftir viðtalið, sem hann segir hafa verið tekið með óhefðbundnum og mjög skemmtilegum hætti, hafi hann fengið send drög að viðtalinu til yfirlesturs. Hann hafi sent til baka ábendingar um eitt og annað sem ekki hafi verið rétt haft eftir eða var á einhvern hátt villandi.

„Þegar viðtalið svo birtist í blaðinu kom hins vegar í ljós að ekkert hafði verið leiðrétt. Enn voru hafðir eftir mér hlutir sem ég kannaðist ekkert við. Það sem var hins vegar merkilegra var að viðtalið hafði lengst til mikilla muna og snerist að miklu leyti um hugrenningar blaðamannsins og skoðanir hans á þeim hlutum sem ég hafði nefnt (eða átti að hafa nefnt). Sums staðar er jafnvel óljóst hvar verið er að vitna í mig og hvar blaðamaðurinn vitnar í sjálfan sig. Loks var bætt við alls konar rangfærslum um mig og annað fólk,“ segir í pistlinum.

Hann segir að í vangaveltum blaðamannsins hafi afstöðu hans í Icesave málinu verið snúið á haus. Þá segir hann að á „óskiljanlegan hátt“ hafi blaðamanninum tekist að draga þá ályktun að það sem stæðu upp úr eftir samtalið, þar sem spjallið snerist nánast alfarið um málefni heimilanna og atvinnumál, væri að Sigmundur vildi ráðast í niðurskurð og að ekki yrði kosið um ESB aðild á næstu árum.

„Að vísu nefndi ég að það væri mikilvægt að forgangsraða og það gæti kallað á niðurskurð á ákveðnum sviðum samhliða auknum útgjöldum annars staðar. Um ESB talaði ég sáralítið og var alls ekki afdráttarlaus um tímasetningu þjóðaratkvæðagreiðslu til eða frá.“