Ísland þarf að endurheimta stöðu sína sem eitt af iðnríkjum heims í stað þess að vera flokkað með nýmarkaðsríkjum á borð við Rússland, Egyptaland og ýmsum ríkjum Suður Ameríku vegna pólitísks óstöðugleika. Þetta segir Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins.

Sigmundur segir í samtali við Bloomberg-fréttaveituna að pólitískur óstöðugleiki hér hafi valdið því að flokkun landsins hafi breyst og það nú talið upp með löndum sem það beri sig alla jafna ekki við. „Við verðum að breyta þessu,“ segir Sigmundur og bætir við að gjaldeyrisójöfnuður landsins sé mikið áhyggjuefni. Styðja þurfið við bakið á grunnatvinnuvegum þjóðarinnar, efla útflutning og vinna þannig á erlendri skuldastöðu landsins. Hann gerir jafnframt ráð fyrir því að efnahagslífinu verði snúið til betri vegar með krónuna sem gjaldmiðil enda ekki útlit fyrir upptöku annarrar myntar í fyrirsjáanlegri framtíð, þ.e. hvorki til skemmri eða miðlungslangs tíma. Af þessum sökum verði að treysta grundvöll krónunnar.

Engu að síður segir Sigmundur að Íslendingar verði að laga sig að Maastricht-skilmálum og öðru regluverki sem evruríki þurfa alla jafna að taka á sig. Það er ekki vegna upptöku evru sem þjóðargjaldmiðils, að sögn Sigmundar heldur skynsamlegar vegstikur til að koma hagkerfinu í rétta átt.