Norska fyrirtækið Signicat, sem sérhæfir sig í öruggum auðkenningum í Evrópu, hefur keypt litháíska fyrirtækið Dokobit sem þróar hugbúnað fyrir rafrænar undirskriftir. Dokobit er stærsti lausnaraðilinn fyrir rafrænar undirskriftir á Íslandi og í Eystrasaltsríkjunum, að því er kemur fram í fréttatilkynningu.

Samruninn er sagður styrkja stöðu beggja fyrirtækja á Norðurlöndunum og í Eystrasaltsríkjunum og mun auka möguleika þeirra á að ná markaðsleiðandi stöðu í Evrópu.

„Til þess að halda samkeppnishæfni í ört vaxandi umhverfi rafrænna undirskrifta er sérstaklega mikilvægt að geta brugðist hratt við. Jafnvel með nauðsynlegri sérfræðiþekkingu og mannafli getur tíminn sem það tekur koma nýjum lausnum á markað verið einn mikilvægasti þátturinn sem stýrir hvaða fyrirtæki ná árangri og framtíðarhorfum þeirra,” segir Ólafur Páll Einarsson , framkvæmdastjóri Dokobit á Íslandi.

Sjá einnig: Bjóða fullgilda staðfestingarþjónustu

„Markmið okkar hefur alltaf verið að verða stærst í Evrópu á sviði rafrænna undirskrifta og með Signicat munum við ná því mun hraðar - með því að nýta hin mikla fjölda auðkenningalausna Signicat, munum við geta einbeitt okkur að nýsköpun og þróun á lausnum fyrir rafrænar undirskriftir,“ segir Ólafur Páll.

Samkvæmt Financial Times er Signicat meðal þeirra fyrirtækja sem eru í hraðasta vexti í Evrópu. Tekjur þeirra jukust frá 24 milljónum Evra árið 2019 yfir í 42 milljónir Evra árið 2020. Signicat er eins og Dokobit einn af fáum Fullgildum traustþjónustuveitendum sem eru skráðir á Traustlista Evrópusambandsins. Á þessu ári keypti fyrirtækið einnig tvö önnur fyrirtæki, Encap Security í Noregi og ElectronicIDentity frá Spáni, sem er leiðandi í heiminum á sviði myndgreininga (fyrir skilríkjaafhendingu), og mun þannig enn frekar styrkja stöðu okkar í Evrópu í fjártæknilausnum á RegTech markaði.

Dokobit mun áfram starfa undir sama nafni. Kaupverð viðskiptanna er ekki opinbert. Samruninn var framkvæmdur með lögfræðilegri aðstoð Ellex, Sorainen og Wikborg Rein.