Sigurður Einarsson, fyrrverandi stjórnarformaður Kaupþings, vill meina að sérstakur saksóknari hafi með ýmsum hætti brotið gegn meðalhófsreglu í rannsóknaraðgerðum sínum. Í greinargerð sinni í máli saksóknara gegn honum nefnir hann sem dæmi þegar saksóknari lét gefa út alþjóðlega handtökuskipun á hendur honum í maí 2010. Hún var gefin út af Héraðsdómi Reykjavíkur þann 10. maí og óskaði sérstakur saksóknari þess að krafa um handtökuskipun yrði tekin fyrir án þess að Sigurður yrði kvaddur á dómþingið. Í lögum um meðferð sakamála segir að dómari skuli að jafnaði ekki verða við slíkri kröfu nema hann telji það nægilega rökstutt að vitneskja um aðgerðina fyrirfram hjá sakborningi geti spillt fyrir rannsókn.

Samkvæmt greinargerð Sigurðar segir í úrskurðinum að veruleg hætta væri á því að Sigurður myndi komast undan handtöku fengi hann vitneskju um að hún væri yfirvofandi. Væri mikilvægt að málsmeðferðin kæmi Sigurði að óvörum þannig að hann reyndi ekki að komast undan og það næðist að taka skýrslu af honum vegna málsins. Svo segir í greinargerðinni: „Þörfin fyrir umbeðna leynd var í reynd ekki brýnni en svo að sérstakur saksóknari beitti sér fyrir birtingu handtökuskipunarinnar á vefsíðu Interpol um leið og úrskurðurinn hafði verið kveðinn upp. Þar með var fjölmiðlum og ákærða ljós handtökuskipunin og sú „hætta“ virk sem leynileg málsmeðferð átti að vinna gegn.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum Tölublöð hér að ofan.