Kvikmyndaframleiðandinn Sigurjón Sighvatsson hefur stefnt þrotabúi Glitnis vegna viðskipta við bankann í tengslum við kaup á dönsku fasteignafélagi. Fyrirtaka er í máli hans í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag. Um skaðabótamál er að ræða. Glitnir lánaði Sigurjóni vegna kaupa á fasteignafyrirtæki í Kaupmannahöfn árið 2005.

Samkvæmt upplýsingum VIðskiptablaðsins lagði Sigurjón verulega fjármuni til fasteignafélagsins. Á hinn bóginn telur hann að Glitnir hafi m.a. brotið lög um fjármálafyrirtæki í tengslum við viðskiptin á margvíslegan hátt og krefur hann þrotabúið um bætur vegna taps af verkefninu.

Sigurjón keypti danska eignarhaldsfélagið VB Investment í Vejle í Danmörku árið 2005 fyrir 900 milljónir danskra króna. Það jafngilti 8,9 milljörðum íslenskra króna á gengi þess tíma. Félagið sérhæfði sig í fasteignaviðskiptum. Íslandsbanki, síðar Glitnir, fjármagnaði kaupin á sínum tíma.

Ekki liggur fyrir hvaða lög um fjármálafyrirtæki Sigurjón telur að Glitnir hafi brotið.