Þrálátur orðrómur er um að Sigurður G. Guðjónsson, stjórnarformaður Árs og dags, sem gefur út Blaðið, ætli að selja hlut sinn í Ári og degi og að tilkynnt verði um söluna þann 29. janúar.

Samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins leitar hann að kaupanda um þessar mundir og þreifingar hafa verið um kaup Árvakurs á hlut Sigurðar, en hugmyndir hans um verðmæti bréfanna þykja óraunhæfar.

Sigurður segist ekki geta staðfest orðróminn í samtali við Viðskiptablaðið. "Þetta hefur ekki verið rætt við mig," segir hann.

Orðrómur er um að Björgólfur Guðmundsson eða Landsbankinn eigi forkaupsrétt á bréfum hans í félaginu. Aðspurður um hvort svo sé segir Sigurður það rangt. Hann segir hins vegar aðra hluthafa eiga forkaupsrétt, það er að segja innbyrðis forkaupsrétt í félaginu.

Samkvæmt upplýsingum Viðskiptablaðsins hefur Landsbankinn veð í að minnsta kosti hluta af bréfum Sigurðar í Ári og degi.

Árvakur á 50% hlut í Ári og degi. Hlutafjáreign Sigurðar í félaginu nemur 13,97%. Karl Garðarsson, framkvæmdastjóri Árs og dags, og Steinn Kári Ragnarsson, auglýsingastjóri félagsins, eiga einnig 13,97% hlut hvor. Fjórir til fimm aðrir eiga þau 8,09% sem eftir standa.

Karl Garðarsson, framkvæmdastjóri Árs og dags, kannast ekki við að Sigurður eða nokkur annar sé að selja hlut sinn í félaginu í samtali við Viðskiptablaðið. Karl segir að samningur sé í gildi um að aðrir hluthafar eigi forkaupsrétt ef einhver ákveði að selja hlut sinn, en að hann hafi ekki frétt að það standi til, þó að sögur þess efnis séu lífseigar. "Ég á ekki von á því að einhver sé að selja, enda engin ástæða til þess. Reksturinn gengur mjög vel," segir hann.