Síldarvinnslan hefur keypt öll hlutabréf í Gullbergi ehf. á Seyðisfirði sem gerir út togarann Gullver NS 12. Þetta kemur fram á vefsíðu Síldarvinnslunnar.

Samhliða kaupum á togaranum keypti Síldarvinnslan húsnæði og búnað Brimbergs til fiskvinnslu á Seyðisfirði.

Áfram verður gert út frá Seyðisfirði og leggur fyrirtækið áherslu á að tryggja áframhaldandi framleiðslustörf tengd sjávarútvegi í byggðarlaginu.

Fram kemur að kaupin séu liður í stefnu Síldarvinnslunnar að styðja við starfsemi fyrirtækisins á Austurlandi. Með því að hafa útgerð og vinnslu á sömu hendi sé traustari stoðum skotið undir heilsársstörf og atvinnulíf í byggðarlaginu.