Úthlíð í Biskupstungum og Húsafell og Varmaland í Borgarfirði eru komin í 4G samband hjá Símanum. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu.

„Við stefnum næst á Húsavík og Siglufjörð á landsbyggðinni og munum enn þétta netið á höfuðborgarsvæðinu,“ segir Gunnhildur Arna Gunnarsdóttir, upplýsingafulltrúi Símans.

„Farsímakerfi Símans vex og þéttist stöðugt. Þessir sendar nú eru settir upp til að auka enn netgæði þeirra sem sækja í sumarbústaði og í þá miklu ferðaþjónustu sem er á þessum svæðum. Viðskiptavinir Símans verða þarna í sterku netsambandi.“

Kerfið nær nú 73% landsmanna, en síðast var það sett upp í Hveragerði, Höfn í Hornafirði, Reyðarfirði og Fnjóskadal en einnig enn víðar en áður á höfuðborgarsvæðinu.