Sífellt fleiri fjármálastjórar stærstu fyrirtækja landsins sjá fram á þyngra rekstrarumhverfi og síðri rekstrarniðurstöðu samkvæmt niðurstöðu könnunar Deloitte meðal fjármálastjóra 300 stærstu fyrirtækja landsins. Meirihluti fjármálastjóra býst við gengislækkun og minni hagvexti í fyrsta sinn síðan Deloitte hóf að gera fjármálastjórakannanir vorið 2014. Þá segjast fleiri fjármálastjórar búast við að það dragi úr ráðningum frekar en að þær aukist og fleiri búast við lækkun úrvalsvísitölu Kauphallar Íslands en hækkun, sem hvorugt hefur gerst áður í könnuninni hér á landi. Hlutfall þeirra sem búast við lækkandi rekstrarhagnaði og minni tekjum hefur einnig hækkað. Þá telja 88% að ekki sé góður tími til að auka áhættu í efnahagsreikningi síns fyrirtækis, sem er hæsta hlutfall frá árinu 2014. „Þessi aukna svartsýni eða varkárni endurspeglast í öllum lykilstærðum, hvað varðar rekstrarafkomu, hagvöxt og mannaráðningar,“ segir Haraldur I. Birgisson, forstöðumaður viðskipta- og markaðstengsla hjá Deloitte.

30% telja að úrvalsvísitala Kauphallar Íslands  OMXI8  muni lækka nokkuð á næstu sex mánuðum miðað við 28% sem segja að vísitalan muni hækka. Hlutfall þeirra sem  búast við lækkandi úrvalsvísitölu hefur ekki verið hærra í könnun  Deloitte. Úrvalsvísitalan er nú sú sama og í september 2015 eftir að hafa hækkað um tæp 3% á þessu ári.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .

© vb.is (vb.is)