Á fyrstu þrem mánuðum þessa árs voru flutt inn 4.683 sjónvarpstæki á móti 2.482 tækjum sömu mánuðina 2009. Þótt innflutningurinn sé greinilega að aukast er hann samt enn mun minni en árin á undan. Fyrstu þrjá mánuðina 2008 voru t.d. flutt inn 7.405 sjónvarpstæki og 5.722 tæki á metárinu 2007, samkvæmt gögnum Hagstofu Íslands.

Á árinu 2007 voru samtals flutt inn 33.917 sjónvarpstæki sem var mesti sjónvarpstækjainnflutningurinn í meira en áratug. Sjónvarpstækjainnflutningur tók að hríðfalla þegar gengi krónunnar fór að lækka á árinu 2008. Greinilegt var að innflytjendur voru farnir að undirbúa sig fyrir gengisfall síðla árs 2007 því að í nóvember það ár voru flutt inn 7.025 tæki sem er langmesti innflutningur sjónvarpstækja sem sést hefur í einum mánuði. Á árinu 2008 féll innflutningurinn síðan úr 33.917 tækjum árið áður í 20.192 tæki og í 14.479 tæki á árinu 2009.