Heilsuveran er heilbrigðisgátt, sem gera má ráð fyrir að allar opinberar heilbrigðisstofnanir landsins verði tengdar við þegar nær dregur haustmánuðum. Um er að ræða miðlægan aðgang að heilsufarsupplýsingum einstaklinga sem allir landsmenn munu hafa aðgang að með rafrænum skilríkjum. Ísland er fyrsta landið til að setja upp slíkt kerfi þar sem hægt er að bóka tíma fyrir alla opinberu heilbrigðisþjónustuna í einu landi á einum miðlægum grunni. Það verður svo á færi hverrar einkastofnunar fyrir sig hvort þær nýti sér aðgengi og þjónustu Heilsuverunnar. Heilsuveran á að geta veitt einstaklingum og fagaðilum aðgang að öllum upplýsingum um heilsufar á vefsvæðinu.

Framkvæmdastjóri Heilbrigðislausna TM Software, Hákon Sigurhansson, segir að fram undan séu viðbætur á þjónustuþáttum Heilsuverunnar. Til dæmis verður hægt að sjá hvar sjúkraskráin sé opnuð og af hvaða deildum. Heilsuveran á að geta veitt aðgang að öllum gögnum sjúklings sem heilbrigðisstarfsfólk setur inn. Efla á sérhæfða virkni kerfisins fyrir einstaka hópa. Þar má telja einstaklinga sem þjást af sykursýki og/ eða einstaklinga með of háan háþrýsting.

Slíkir hópar fólks eiga að geta leitað sér upplýsinga og ráðlegginga, inn á svæði Heilsuverunnar, sem tengjast þeim sjúkdómum sem þeir glíma við og sett inn allar mælingar sem einstaklingarnir geta gert sjálfir.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér .