Slitastjórn Glitnis hefur fallist á að fresta skaðabótamáli á hendur Lárusi Welding og Jóni Ásgeiri Jóhannessyni þar til niðurstaða í rannsókn sérstaks saksóknara í máli mannanna tveggja liggur fyrir. Kemur þetta fram í fréttum Stöðvar 2. Skaðabótamálið snýst um lán Glitnis til FS 38, félags í eigu Pálma Haraldssonar, til kaupa á Aurum Holdings, sem á m.a. skartgripakeðjuna Goldsmiths í Bretlandi.

Telur slitastjórnin að greitt hafi verið yfirverð fyrir Aurum, en í frétt Stöðvar 2 er vitnað í bréf, sem Jón Ásgeir sendi embætti sérstaks saksóknara, þar sem færð eru fyrir því rök að greitt hafi verið rétt verð fyrir félagið. Er þar vísað í viljayfirlýsingu við erlent fyrirtæki um kaup á Aurum, en þau kaup féllu niður vegna versnandi efnahagsástands árið 2008.