Evrópuþingið hefur nú samþykkt að matvæli sem innihalda umdeild litarefni verði merkt með varúðarorðum.

Samkvæmt nýjum lögunum verður skylt að merkja matvæli sem innihalda litarefnin: E110, E104, E122, E129, E104 og E124, með varúðarmerkingunni.

Á vefsíðu Neytendasamtakanna segir að samtökin hafa margoft fjallað um svokölluð asó-litarefni en skaðsemi þeirra hefur lengi verið í umræðunni og gagnrýnivert að þau skuli yfirhöfuð leyfð í matvælum.

Rannsóknir hafa ítrekað sýnt samhengi á milli neyslu efnanna og ofvirkni og hegðunarvanda hjá börnum, segir á heimasíðu Neytendasamtakanna.

Á síðasta ári birtust niðurstöður könnunar (Southampton rannsóknin) sem sýndi að neysla litarefnanna jók ofvirkni hjá börnum. Efnin eru nokkuð algeng í matvælum t.d. í sælgæti, ýmsum drykkjum, frostpinnum og jafnvel í sultum

Þess er vænst að lögin taki gildi innan nokkurra vikna og merking verði komin í gagnið seinast 18 mánuðum síðar.

Á vef Neytendasamtakanna segir jafnframt að lengi hafi verið barist fyrir því að þessi efni yrðu bönnuð enda engin þörf fyrir þau þar sem hægt sé að nota öruggari efni.