Greiningardeild Lehman Brothers hefur gefið út samantekt um efnahagsástand á Íslandi. Lehman Brothers spá því að hagvöxtur á Íslandi verði 1,5% á þessu ári og 2,5% á næsta ári, en samdráttur verði á fyrstu tveimur ársfjórðungum þessa árs.

Í samantektinni lýsa Lehman Brothers þeirri skoðun sinni að nú séu tveir möguleikar í gjaldeyrismarkaðsmálum Íslands. Annars vegar geti Seðlabankinn gripið inn í gjaldeyrismarkað með beinum hætti, með kaupum á krónum. Það myndi að mati greiningardeildarinnar leiða til baráttu bankans og markaðsaflanna. Þeirri baráttu myndi bankinn tapa og það myndi leiða til mikillar lækkunar krónunnar, þannig að evran færi yfir 130 krónur.

Hinn möguleikinn sem er nefndur er að markaðurinn öðlist meiri trú á íslenska efnahagskerfinu og íslensku bönkunum og það, ásamt frekari stuðningi annarr  seðlabanka, færi jafnvægi milli evru og krónu í eðlilegt horf, sem Lehman Brothers telja vera 100 íslenskar krónur á evru.

Niðurstaða greiningardeildar Lehman Brothers er að í stað þess að treysta á peningamálastefnu ættu íslensk stjórnvöld að hvetja af krafti til fjárfestinga, bæði fyrirtækjafjárfestinga og beinna erlendra fjárfestinga. Á sama tíma ættu þau að flýta fyrir lækkun skatta og opinberum útgjöldum til að efla vöxt hagkerfisins á næsta ári. Því skyldi þó ekki gleyma að komið er upp mikið ójafnvægi á Íslandi í viðskiptum við önnur lönd. Stuttur og skarpur samdráttur á þessu ári myndi gera Íslandi gott, til að eyða þessu ójafnvægi á sem skemmstum tíma.