„Efla þarf framlög einkageirans og veita skattaívilnanir til þeirra sem leggja til fjármagn til sjóða, stofnana eða háskóla, jafnt til einstaklinga sem annarra lögaðila,“ segir í drögum að tillögum um einföldun á vísinda- og nýsköpunarkerfinu á Íslandi.

Lagðar eru til grundvallarbreytingar í fjármögnun nýsköpunar og rannsókna hér á landi sem helst felast í stórauknum hlut samkeppnissjóða og fjárveitinga byggðum á árangursmati.

Í tillögunum, sem unnar eru á vegum Vísinda- og tækniráðs, kemur fram að hlutur fyrirtækja í fjárfestingum í vísindum og nýsköpun er minni en í grannríkjunum.