Skattar á einstaklinga hafa hækkað umtalsvert meira hér á landi en annars staðar, en í tölum KPMG eru borin saman hæstu skattstig á tekjur einstaklinga. Hæsta skattstig á Íslandi hefur hækkað úr 35,7% árið 2008 í 46,24%. Skattar í Noregi hafa haldist óbreyttir í 47,8% á þessu tímabili, en í Danmörku hafa þeir lækkað úr 62,28% í 55,38%. Í Finnlandi og Svíþjóð hafa þeir lækkað eilítið og eru 49,0% og 56,6%. Smávægileg hækkun hefur orðið á meðalskattheimtu í Evrópu, eða úr 34,59% í 34,76% og þá hefur meðaltal hæsta skattstigs í OECD-ríkjum hækkað úr 40,07% í 40,58%.

Alexander Eðvardsson hjá KPMG segir að nokkur atriði þurfi að hafa í huga þegar skattar á einstaklinga í mismunandi löndum eru bornir saman. „Lífeyrissjóðakerfin í Skandinavíu og fleiri ríkjum eru fjármögnuð í gegnum skattkerfið en ekki í sjóðsöfnunarkerfi eins og hér. Ef við ætluðum að bera saman skattbyrði einstaklinga í þessum ríkjum við byrðina hér ættum við að bæta fjórum prósentustigum við skattinn hér, sem er framlag launþega í lífeyrissjóði Íslandi. Þegar það er gert sést að á Íslandi er skattbyrðin ekki lægst á Norðurlöndunum,“ segir Alexander.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum Tölublöð hér að ofan.