Forsvarsmenn Bear Stearns áttuðu sig ekki á því fyrr en á eftirmiðdegi föstudags hversu slæm staða bankans var orðin. Að sögn Wall Street Journal uppgötvuðu stjórnendur Bear Stearns að fyrirtækið myndi ekki ná að verjast því sem kallast mætti áhlaupi í formi brunaútsölu hlutabréfa.

Um það bil hálf fimm að staðartíma sannfærðist Alan Schwarz, forstjóri Bear Stearns, um að félagið horfðist í augu við örvæntingarfullar aðstæður þegar verðbréfafyrirtæki kröfðust reiðufjár í stað tryggingar og vogunarsjóðir byrjuðu að leysa til sín fé.

Í kjölfarið ákváðu Ben Bernanke, seðlabankastjóri, Henry Paulson, fjármálaráðherra auk undirráðherra innanríkisfjármála í sameiningu að lána Bear Stearns fjármuni til að halda sér á floti, með milligöngu JPMorgan Chase.