Landsvirkjun hefur tilkynnt stórnotendum á norður- og austurhluta landsins að nauðsynlegt sé að grípa til skerðinga á raforku til þeirra, í samræmi við samninga. Gert er ráð fyrir að skerðingarnar geti staðið allt fram í maí, að því er kemur fram í fréttatilkynningu frá Landsvirkjun.

Skerðingarnar ná til álvers Alcoa Fjarðaáls á Reyðarfirði, kísilvers PCC Bakka Silicon á Húsavík, TDK aflþynnuverksmiðjunnar og atNorth gagnaversins á Akureyri.

Landsvirkjun hafði þegar gripið til skerðingar á afhendingu orku til stórnotenda á suðvesturhluta landsins en þær hafa staðið yfir frá 19. janúar síðastliðnum.

„Skerðingarnar hafa haft þau áhrif að staða Þórisvatns hefur batnað. Vegna takmarkana í flutningskerfi Landsnets var ekki ástæða til skerðinga fyrir norðan og austan fyrr en nú,“ segir í tilkynningu Landsvirkjunar.

Fram kemur að þurrkatíð hafi verið fyrir norðan og austan. Það hafi valdið því að niðurdráttur lónanna í þessum landshlutum hefur verið hraðari en spáð var um miðjan janúar. Skerðingar núna eru til þess fallnar að verja vatnsstöðuna í Blöndulóni og Hálslóni.

Snjóalög eru yfir meðallagi og horfur í vor, þegar leysingar hefjast, eru ágætar samkvæmt Landvirkjun. Erfitt sé hins vegar að spá fyrir um hvenær leysingar hefjast.

„Reynslan er sú að þær eru allt að mánuði síðar á ferðinni við Hálslón en Þórisvatn. Þess vegna er gengið út frá að skerðingar á norður- og austurhluta landsins geti staðið allt fram í maí.“