*

laugardagur, 28. nóvember 2020
Innlent 23. október 2020 14:37

Skilagjaldsmáli vísað frá dómi

Hefði dómur fallið ríkinu í óhag hefði það þurft að endurgreiða ríflega tíu milljarða króna.

Jóhann Óli Eiðsson
Haraldur Guðjónsson

Máli Vínness gegn íslenska ríkinu, þar sem krafist var endurgreiðslu á 250 milljón krónum, vegna álagðs skilagjalds, var vísað frá dómi ex officio í dag. Dómari málsins taldi kröfu málsins óglögga og vísaði málinu frá án þess að krafa um slíkt hefði komið frá ríkinu.

Viðskiptablaðið fjallaði um málið fyrir tveimur vikum síðan en ljóst er að það varðar umtalsverða hagsmuni fyrir ríkið. Hefði verið fallist á kröfur Vínness hefði ríkið þurft að endurgreiða ríflega tíu milljarða króna til þeirra lögaðila sem sætt hafa álagningu gjaldsins.

Skilagjaldið hefur verið látið renna til Endurvinnslunnar hf. Hluthafar þess eru meðal annars Ölgerðin, Coca-Cola á Íslandi og Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins, með fimmtungshlut hvert, og Rio Tinto og Elkem með sjö prósenta hlut hvort félag. Ríkið á síðan sjálft tæp átján prósent. Samkvæmt fyrrnefndum lögum ber því að standa undir rekstri Endurvinnslunnar, sem hefur einkarétt til starfseminnar, en innifalið í gjaldinu er lögbundin hagnaðarskylda. Hækkun á gjaldinu hefur síðan jafnan komið til eftir beiðnir þess efnis frá félaginu. Taldi Vínness þetta ekki standast ákvæði stjórnarskrár.

Sjá einnig: Ríkið gæti þurft að endurgreiða milljarða

Í úrskurði héraðsdóms segir að dómkrafa málsins hafi verið skýr en hins vegar hafi upphæðin ekki verið útskýrð „tölulega þannig að heitið geti“. Vínness hafi greitt tæpar 225 milljónir króna í skilagjald en ofan á það leggst virðisaukaskattur. Útreikningar dómsins á kröfunni og álögðu gjaldi sýndi að þar skeikaði um einni milljón en það taldi dómurinn að mætti rekja til þess að fyrstu tvær greiðslurnar, sem krafist var endurgreiðslu á, hafi skattlagst í efra þrepi virðisaukaskatts en hinar í lægra þrepi.

Eitt dómskjal lá fyrir í málinu en það var útskrift úr Excel sem bar heitið „Yfirlit yfir greiðslur skilagjalds og umsýsluþóknun á tímabilinu […]“. Það geymdi 29 gjalddaga auk sundurliðana á hverjum og einu en sú sundurliðun var merk GD, GE, GF, GC, GG og GB.

„Engar skýringar eru gefnar á því, í stefnu eða framlögðu skjali, fyrir hvað þessar skammstafanir standa. Í aðalmeðferð málsins upplýsti lögmaður [Vínness], aðspurður af dómara, að þarna væri vísað til mismunandi tegunda af umbúðum. Þannig stæði GD fyrir umbúðir úr gleri stærri en 500 ml og GC fyrir áldósir svo dæmi væru tekin. Engar upplýsingar liggja fyrir um það hvort og þá hvenær umrædd gjöld hafi verið greidd. Ekki eru heldur upplýsingar sem staðfesta að flokkun [Vínness] í tölvureiknisskjalinu sé rétt,“ segir í forsendum úrskurðarins. Þá hafi misræmi verið í skjalinu.

Að mati dómsins gat það einnig haft áhrif hvort um væri að ræða hreint skilagjald eða umsýslugjald. „Því verður að mati dómsins ekki hjá því komist að upplýsingar um framangreinda skiptingu liggi skýrt fyrir í málinu og hún sé útskýrð til hlítar af [Vínnesi] með þeim hætti að [ríkið] geti haft skoðanir á þeirri skiptingu og þýðingu hennar fyrir málið, en ekki síður dómari málsins,“ segir í forsendunum.

Meðal annars sökum þessa taldi dómarinn málið svo vanreifað að ekki væri hægt að leggja dóm á það en engin krafa um slíkt kom frá ríkinu. Málinu var því vísað frá dómi en málskostnaður milli aðila var látinn falla niður.