Marel hefur gengið frá samningum um breytta skilmála á langtímafjármögnun fyrirtækisins. Lánin eru nú öll hefðbundin og hefur samningum verið framlengt um eitt ár. Þetta kemur fram í tilkynningu fyrirtækisins til Kauphallar. Upphaflegir samningar um langtímafjármögnun félagsins voru gerðir í nóvember árið 2010 og námu 350 milljónum evra.

Samkvæmt hinu nýja samkomulagi er greiðsluvíkjandi láni nú breytt í hefðbundið sambankalán. Samningurinn er til næstu fjögurra ára og eru gjalddagar í nóvember 2016. Meðalvaxtakjör í upphafi EURIBOR/LIBOR +250 bps en geta breyst með tilliti til skuldsetningar félagsins. Það eru bankarnir ABN AMRO, Friesland Bank, ING Bank, Landsbankinn, LB Lux og Rabobank sem standa sameiginlega að langtímafjármögnun Marel og samið hefur verið við um breytingarnar.

„Þetta gerir okkur kleift að lækka vaxtakostnað félagsins enn frekar og að auki styður þetta vel við vaxtarstefnu og markmið Marel til lengri tíma,“ er haft eftir Erik Kaman, fjármálastjóra Marel, í tilkynningunni.