Af þrjátíu og sjö frambjóðendum í forvali Vinstri grænna í Reykjavík, Suðvesturkjördæmi, Norðausturkjördæmi og Norðvesturkjördæmi hafa þrjátíu og fimm skilað inn yfirlýsingu um kostnað framboðsins til Ríkisendurskoðunar. Í því felst að kostnaður hefur í engu tilfelli verið yfir 400.000 krónum hjá hverju framboði fyrir sig. Fari kostnaður yfir 400.000 krónur þarf að skila inn sundurliðuðu uppgjöri til Ríkisendurskoðunar.

Skila ber inn yfirlýsingu eða uppgjöri innan þriggja mánaða frá kjördegi og hafa allir frambjóðendur Vinstri grænna skilað inn yfirlýsingu í þeim tilfellum þar sem þessi frestur er runninn út.

Þeir tveir frambjóðendur sem ekki hafa skilað inn yfirlýsingu eða uppgjöri eru þau Trausti Sveinsson og Þóra Geirlaug Bjartmarsdóttir, sem bæði buðu sig fram í Norðvesturkjördæmi. Þóra skipar þriðja sæti listans og Trausti það sjöunda. Mikilvægt er að árétta að vegna þess að forval Vinstri grænna í því kjördæmi var í janúarlok er frestur til að skila inn fjárhagsupplýsingum ekki runninn út.