Gert er ráð fyrir því að Skipti, móðurfélag Símans, verði skráð á markað sem fyrst. Kemur þetta fram í tillögu að fjárhagslegri endurskipulagningu Skipta, sem kynnt var í dag. þar segir þó að ekki sé búist við að skráning bréfa félagsins í kauphöll geti orðið fyrr en í fyrsta lagi árið 2014.

Í tillögunum kemur m.a. fram að lánardrottnar Skipta sem eiga óveðtryggð skuldabréf félagsins mega búast við því að tapa á bilinu 21% til tæplega 28% krafna sinna á hendur Skiptum í fjárhagslegri endurskipulagningu félagsins. Þeir fá lítilsháttar greiðslu í formi reiðufjár upp í kröfur. Að öðru leyti er gert ráð fyrir því að öllum kröfum í skuldabréfaflokknum verður breytt eða skipt fyrir hlutafé í Skiptum.