Samkeppniseftirlitið hefur nú til skoðunar fjölmargar ábendingar um möguleg samkeppnishamlandi inngrip endurreistu bankanna á markaði.

Þetta staðfesti Páll Gunnar Pálsson, forstjóri Samkeppniseftirlitsins, í samtali við Viðskiptablaðið.

Meðal mála sem eru til athugunar er yfirtaka Landsbankans á Húsasmiðjunni, sem rekur 16 verslanir á landsvísu, og áhrif hennar á keppinauta á markaði. Kvartanir hafa einnig borist frá öðrum vegna fjárhagslegrar endurskipulagningar.

Haft var eftir Gylfa Magnússyni, efnahags- og viðskiptaráðherra, í Viðskiptablaðinu í síðustu viku að hann hefði „verulegar áhyggjur" af því að inngrip bankanna á samkeppnismarkaði, með yfirtökum á fyrirtækjum, gætu haft alvarlegar afleiðingar fyrir samkeppni. Sagði hann ráðuneytið vera með það til skoðunar að stytta tímann sem bankarnir gætu verið eigendur að fyrirtækjum. Ákvörðun um hvernig þetta verður útfært hefur ekki verið tekin endanlega, samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins.

Páll Gunnar segir Samkeppniseftirlitið fylgjast grannt með stöðu mála. Aðstæðurnar séu að mörgu leyti einstakar þar sem mörg fyrirtæki þurfi á fjárhagslegri endurskipulagningu að halda.

„Þetta eru allt saman vandmeðfarin mál, en grunnsjónarmiðið frá sjónarhóli Samkeppniseftirlitsins hlýtur að vera að hagsmunir neytenda af virkri samkeppni séu hafðir að leiðarljósi. Eitt af því sem leggja ber áherslu á er að aðeins fyrirtæki sem hafa getu til að starfa áfram, þ.e. eru með lífvænlegan rekstur, fái aðstoð og að hún sé líkleg til að duga. Að sama skapi verður að virða skyldur bankans til að reyna eftir fremsta megni að vernda sínar eignir, þ.e. útlánin. Ekki má heldur alhæfa um að yfirtaka banka á fyrirtækjum og rekstur þeirra leiði til þess að samkeppni skerðist og neytendur verði fyrir tjóni. Öllu máli skiptir hvernig að því er staðið."

Lögðu línurnar í upphafi

Strax í kjölfar hrunsins sl. haust sendi Samkeppniseftirlitið bönkunum álit þar sem mikilvægi samkeppnissjónarmiða var ítrekað.

„Strax við upphaf hrunsins var nokkuð fyrirsjáanlegt að sú staða kæmi upp að bankarnir þyrftu að taka yfir einstaka fyrirtæki. Strax þá gaf Samkeppniseftirlitið út álit til banka og stjórnvalda þar sem við mæltumst til þess, í tíu aðskildum atriðum, að samkeppnissjónarmið yrðu höfð til hliðsjónar í endurreisninni," segir Páll Gunnar.

Álit eftirlitsins er þó ekki bindandi fyrir bankana heldur aðeins fyrir þá að hafa til hliðsjónar við ákvarðanir þegar fyrirtæki eru endurskipulögð.