Skotar höfnuðu því að gerast sjálfstætt ríki í þjóðaratkvæðagreiðslunni í gær. 45% kjósenda sögðu já við tillögunni um sjálfstætt Skotland, en 55% sögðu nei. Kjörsókn var gríðarlega mikil, eða 84,5%.

Fyrsti ráðherra Skotlands, Alex Salmond hefur kallað eftir samstöðu fólks í kjölfar úrslitanna og hvatti stærstu stjórnmálaflokka Bretlands til þess að standa við loforð um að aukin völd færist til Skotlands.

David Cameron, forsætisráðherra Bretlands, segist hæstánægður og að staðið verði við loforð um aukin völd. Hann tilkynnti jafnframt að Smith lávarður af Kelvin myndi leiða breytingarnar sem ráðist verður í. Forsætisráðherrann viðurkenndi einnig að almenningur í Englandi, Wales og Norður-Írlandi þyrfti að hafa meiri völd en verið hefur.

Lögregla í Glasgow rannsakar tilraunir til kosningasvika. Að minnsta kosti tíu tilvik komu upp á fleiri en einum kjörstað í Glasgow þar sem fólk reyndi að villa á sér heimildir og kjósa undir nafni einhvers annars.