Regus á Íslandi opnar í dag, 24. janúar kl. 17.00, formlega nýjan skrifstofukjarna á 3. hæð á Hafnartorgi. Þar verða starfræktar 46 skrifstofur, fundarherbergi í mismunandi stærðum og svæði fyrir sameiginlega vinnuaðstöðu.

Allar skrifstofur og starfsstöðvar eru afhentar viðskiptavinum fullbúnar með rafmagnsborðum, skrifstofustólum og öðrum nauðsynlegum búnaði, s.s. fjarskiptabúnaði, nettengingu og fleira segir í fréttatilkynningu frá félaginu. Skrifstofukjarni samanstendur af einkaskrifstofum, samnýttum vinnusvæðum, setustofum, fundarherbergjum og fjarskrifstofum.

Í tilefni af opnun skrifstofukjarnans hafa þau Andrzej Mrozek-Folkierski, yfirmaður vöruþróunar Regus, og Roz Young, svæðisstjóri Regus í Evrópu, komið hingað til lands til að vera við opnunina.

Regus á Íslandi rekur nú þegar fjóra skrifstofukjarna hér á landi undir merkjum Regus og Orange Project, í Ármúla 4-6, í Skútuvogi, á Höfðatorgi og á Akureyri. Skrifstofukjarninn á Hafnartorgi verður fimmti skrifstofukjarni félagsins. Tómas Hilmar Ragnarz, framkvæmdastjóri og eigandi Regus á Íslandi opnunina vera skref inn í framtíðina með nútímalegri skrifstofuaðstöðu.

„Fyrir utan það að vera vel staðsett í miðbænum býður nýtt húsnæði upp á mikinn sveigjanleika, fallegt umhverfi og góða vinnuaðstöðu,“ segir Tómas Hilmar. „Það er ljóst að eigendur fyrirtækja af öllum stærðum og gerðum horfa til þess að nýta í auknari mæli sveigjanleika í skrifstofurekstri með því að nýta þjónustu skrifstofukjarna.“