Skuldabréf Eikar fasteignafélags upp á 11,6 milljarða króna að nafnvirði voru tekin tll viðskipta á Aðalmarkaði Kauphallarinnar í dag. Skuldabréfaútboðinu lauk í október í fyrra og var það stærsta útboð einkaaðila frá árinu 2008.

Fram kemur í tilkynningu frá Eik að með töku bréfanna til viðskipta í kauphöllinni gefist fleiri fjárfestum kostur á tryggri fjárfestingu á fyrirtækjamarkaði, en yfir 30 fjárfestar tóku þátt í upphaflega útboðinu. Á meðal upphaflegra fjárfesta í flokknum voru Íslandsbanki, lífeyrissjóðir, tryggingarfélög, verðbréfasjóðir og einstaklingar. Heildarstærð skuldabréfaflokks Eikar getur mest orðið 20 milljarðar króna.

Skuldabréf Eikar eru verðtryggð jafngreiðslubréf til 30 ára og bera fasta 4.3% árlega vexti. Vextir og afborgun af höfuðstóli greiðast tvisvar sinnum á ári eða þann 15. október og 15. apríl ár hvert fram að lokadegi 15. október árið 2042. Fyrsti greiðsludagur vaxta og afborgunar er 15. apríl 2013. Til tryggingar greiðslu skuldabréfanna er valið safn fasteigna í eigu félagsins.

Eik fasteignafélag á 60 eignir og er það einn stærsti eigandi leiguhúsnæðis í miðborg Reykjavíkur. Leigutakar eru rúmlega 230.