Kaupþing sker sig frá Glitni og Landsbankanum með talsvert hærra skuldatryggingarálagi, segir greiningardeild Landsbankans og segir til samanburðar að í mars síðastliðnum hafi Glitnir skorið sig talsvert frá Kaupþingi og Landsbankanum, með mun lægra skuldatryggingarálag.

"Það er tvennt sem vekur athygli þegar þróun á skuldatryggingarálagi bankanna er skoðuð. Í fyrsta lagi þá hefur álagið lækkað hlutfallslega mun meira hjá Landbankanum (-25%) og Kaupþingi (-21%) en hjá Glitni (-13%) frá lokum þriðja ársfjórðungs 2006.

Í öðru lagi vekur athygli hversu lítill munur er á skuldatryggingarálagi Landsbankans og Glitnis, en Glitnir er með hærra lánshæfismat en Landsbankinn og er auk þess eini bankinn með lánshæfimat frá S&P," segir greiningardeildin.

Hún segir að fimm ára skuldatryggingarálag (CDS) bankanna hafi verið nokkuð stöðugt frá því í byrjun desember, en þá var álag á Glitni um 36 punktar, 53 punktar hjá Kaupþingi og 46 hjá Landsbankanum.

"Skuldatryggingarnar lækkuðu hjá öllum bönkunum fram að jólum en eftir skýrslu Standard & Poors hækkuðu skuldatryggingarnar lítið eitt. Í dag er skuldatryggingarálagið 37 punktar hjá Glitni, 51 punktur hjá Kaupþingi og 39 punktar hjá Landsbankanum," segir greiningardeildin.