Evrópuríki sem hingað til hafa verið óhult frá umróti í álfunni vegna mikilla skulda finna nú í auknum mæli fyrir krísunni. Ávöxtunarkrafa á skuldabréf Austurríkis, Hollands, Finnlands og Frakklands tók stökk í gær og þau féllu í verði, að því er Wall Street Journal greinir frá í dag. Ríkin hafa hingað til staðið af sér storminn sem hefur verið í álfunni.

Breytingarnar þykja vera til marks um að stjórnvöldum tekst ekki að sannfæra fjárfesta um að skuldavandinn nái ekki til ríkjanna. Í gær áttu fjárfestar í erfiðleikum með að selja nær öll skuldabréf gefin út af Evrópuríkjum, að Þýskalandi undanskildu. Samhliða fór ávöxtunarkrafa á skuldabréf Ítalíu yfir 7% að nýju.