Ítalska ríkið er þriðja skuldugasta ríki heims á eftir Bandaríkjunum og Japan. Skuldirnar nema tveimur trilljónum evra. Þetta kemur fram á vef Telegraph.

Að sögn blaðsins tókst landinu að halda sér fjarri erfiðleikunum í Suður-Evrópu í upphafi fjármálakrísunnar. Ástæðan er mjög sterkt bankakerfi, lágar skuldir einkaaðila og járnklær fjármálaráðherrra landsins, Giulio Tremonti.

Undanfarnar vikur hefur verið mikill óstöðugleiki í stjórnmálalífi landsins, en Silvio Berlusconi þarf að verjast vantrausti í þinginu um miðjan desember. Er það í annað sinn í haust en Berlusconi varðist vantrausti í lok september.

Skuldatryggingarálag á 5 ára skuldabréf ríkisins hækkuðu mikið í gær, eða um 7,5% og er álagið nú 216. Til samanburðar er álagið á íslenska ríkið 273.