Vickers-nefndin svokallaða sem undir forystu Sir John Vickers hefur rannsakað þátt breskra banka í fjármálakreppunni sem nú gengur yfir heiminn skilaði í dag tillögum sínum til úrbóta á breska bankakerfinu. Eins og við var búist leggur nefndin til að skilin á milli kjarnastarfsemi banka og fjárfestingarstarfsemi þeirra verði gerð skýrari og að sérstök stjórn sitji yfir kjarnastarfseminni en önnur yfir fjárfestingarstarfseminni. Athygli vekur að Vickers og félagar hans í nefndinni, meðal þeirra Martin Wolf aðstoðarritstjóri Financial Times, vilja gefa bönkunum svigrúm til þess að skilja sjálfir á milli hinna mismunandi þátta starfseminnar.

Þá leggur nefndin áherslu á að gerð verði krafa um að eigið fé bankanna fari aldrei niður fyrir 10% af áhættuvegnum eignum þeirra.

Talið er að tillögurnar muni kosta breska bankakerfið um 7 milljarða punda verði þær að veruleika og féll gengi breskra banka þegar fréttir af skýrslunni bárust markaðnum.