Þrotabú Smáís, Samtaka myndrétthafa á Íslandi, var tekið til gjaldþrotaskipta þann 27. ágúst síðastliðinn í héraðsdómi Reykjavíkur. Kröfuhafar hafa tvo mánuði til þess að lýsa kröfum í þrotabúið.

Stjórn Smáís segir ástæðuna fyrir gjaldþrotaskiptunum vera brot Snæbjarnar Steingrímssonar, fyrrverandi framkvæmdastjóra samtakanna, sem stjórnin segir að hafi viðgengist í mörg ár.

Fram kemur í frétt RÚV um málið að stjórnin staðhæfi í gjaldþrotaskiptabeiðninni að ársreikningar samtakanna hafi verið falsaðir um árabil, opinberum gjöldum hafi ekki verið skilað með réttum hætti og vanrækt hafi verið að halda bókhald.

Snæbjörn hefur jafnframt verið kærður til sérstaks saksóknara, en samkvæmt heimildum RÚV er rannsókn lögreglu á frumstigi.