Smásala í Bretlandi óx um 0,7% í nóvember frá fyrra mánuði, að því er kemur fram í hálffimm fréttum greiningardeildar Kaupþings banka. Þetta er er töluvert umfram væntingar markaðsaðila.

"Þetta gefur vísbendingu um að einkaneysla sé að taka við sér á ný. Vöxtinn má helst rekja til aukinnar sölu á fatnaði í mánuðinum. Ársvöxtur í smásölu fer upp í 2,1% en á sama tíma í fyrra mældist ársvöxtur 5,6%," segir greiningardeildin.

"Hagfræðingar telja að mikil óvissa ríki enn um áframhaldandi þróun smásölu. Þeir benda til að mynda á að aukin smásala í nóvember sé að hluta til vegna kuldakasts í mánuðinum sem hvatti til aukinna fatakaupa. A2uk þess sem vísbendingar eru um að jólaverslun landsmanna hafi farið fyrr af stað en áður."