Neytendur tóku sér tak í maí og smásöluverslun á föstu verðlagi stóð nánast í stað í samanburði við fyrra ár. Þannig seldust dagvörur á föstu verðlagi í smásölu fyrir 0,1% meira í maí sl. en í sama mánuði árið 2003 samkvæmt nýrri smásöluvísitölu SVÞ-IMG. Áfengissmásalan á föstu verðlagi dróst saman um 1,1% og sala lyfjaverslana minnkaði um 0,1% miðað við maí í fyrra. Verðbreytingar voru óverulegar á milli ára eða vel innan við 1% í öllum flokkum.

Á síðasta ári var Hvítasunnuhelgin, fyrsta ferðahelgi ársins, viku af júní en í ár féll hún á síðustu helgina í maí. Þetta kann að skýra litla aukningu dagvörusmásölu, svo og lækkun áfengissmásölu á föstu verðlagi. Nokkur hækkun á meðalgildi síðustu 3.mánaða á föstu verðlagi var samanborið við sama tímabil fyrir ári.

Smásöluvísitala SVÞ-IMG er reiknuð af IMG samkvæmt upplýsingum sem berast beint frá fyrirtækjunum og ÁTVR. Miðað er við að a.m.k. 80% af veltu í greininni skili sér með þessum hætti. Venjulega er þetta hlutfall þó nokkuð hærra.

Smásöluvelta ÁTVR í áfengi er leiðrétt með viðkomandi verðvísitölu úr neysluverðs-vísitölu Hagstofunnar og lyf sömuleiðis með viðkomandi verðvísitölu fyrir lyf og lækningavörur.