Microsoft hefur hleypt af stokkunum nýju verkefni, WebsiteSpark, sem miðar að því að aðstoða smærri vefhönnunarfyrirtæki og einyrkja í vefhönnun við að koma undir sig fótunum.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Microsoft á Íslandi en WebsiteSpark veitir vefhönnunarfyrirtækjum með færri en tíu starfsmenn frían aðgang að öllum helstu vefþróunartólum og vefþjónum Microsoft og fylgir í kjölfar sambærilegra verkefna Microsoft, BizSpark og DreamSpark.

Fram kemur að BizSpark, sem hleypt var af stokkunum fyrir tæpu ári, veitir sprotafyrirtækjum aðgang að öllum helstu þróunartólum Microsoft. DreamSpark, sem var innleitt hér á landi sl. vor, veitir nemum á framhalds- og háskólastigi sambærilegan aðgang. Þannig geta sprotafyrirtæki og háskólanemar nýtt sér öflugustu þróunarlausnir Microsoft sem völ er á óháð efnahag.

„Þekkingariðnaðurinn er án efa sá vettvangur sem verður hvað mikilvægastur fyrir okkur þegar kemur að því að endurskipuleggja atvinnulíf á Íslandi á komandi árum,“ segir Halldór Jörgensson, framkvæmdastjóri Microsoft Íslandi í tilkynningunni.

„Því getur þessi stuðningur Microsoft við uppbyggingu í þekkingariðnaði skipt miklu, ekki bara fyrir þá sem eru að byrja að fóta sig í námi eða við stofnun fyrirtækja, heldur þjóðina í heild þegar fram í sækir. Íslendingar eru fljótir að grípa tækifæri á borð við þessi og það hefur verið frábært að fylgjast með þeim mikla áhuga sem íslensk sprotafyrirtæki og nemendur hafa sýnt á BizSpark og DreamSpark frá því þau voru sett á laggirnar. Ég hef fulla trú á að efnileg vefhönnunarfyrirtæki muni á sama hátt taka WebsiteSpark opnum örmum.“