Heildarkostnaður Veitna á snjallvæðingu mæla er áætlaður um 5,7 milljarða króna. Þetta kemur fram í svari Veitna við fyrirspurn Vigdísar Hauksdóttur, fulltrúa Miðflokksins í borgarráði.

Veitur tilkynntu í febrúar um 1,8 milljarða króna samning við Securitas vegna uppsetningu á 160 þúsund snjallmælum. Um er að ræða mælaskipti á um 102 þúsund rafmagnsmælum, 55 þúsund varmamælum og 3 þúsund vatnsmælum á þjónustusvæði Veitna. Áætlanir gera ráð fyrir að snjallmælavæðingu veitukerfanna verði að fullu lokið í árslok 2024.

Vigdís lagði fram fyrirspurn í borgarráði þann 3. október 2019 um áætlaðan kostnað verkefnisins, rökin fyrir fjárfestingunni og hvaða áhrif snjallvæðingin hafi á þjónustu Veitna við viðskiptavini. Svarið frá Veitum barst þann 12. júlí síðastliðinn.

Þar kom fram að ákvörðunin um snjallvæðingu mæla byggi á þeim forsendum að niðurstöður hagkvæmnigreiningar voru jákvæðar, núverandi mælasafn Veitna sé komið að endimörkum líftíma síns og að verkefnið sé þáttur í stafrænni þróun veitureksturs og þjónustu við viðskiptavini.

„Var farið í þetta fokdýra verkefni vegna þess að „niðurstöður hagkvæmnigreiningar voru jákvæðar“ en það ekkert rökstutt frekar?“ segir í bókun Vigdísar. Hún vitnar svo í samninginn við Securitas sem er metinn á 1,8 milljarða króna og segir að það sé himinn og haf frá áætluðum heildarkostnaði verkefnisins. „Það er fáránlegt að það hafi tekið tæp tvö ár að svara þessari einföldu fyrirspurn,“ bætir Vigdís við.

Í svari Veitna við fyrirspurn Viðskiptablaðsins kemur fram að samningurinn við Securitas nái ekki utan um verkefnið í heild sinni. Þar vanti meðal annars kostnað við kaup á mælum og hugbúnaði, innri vinnu og breytingum á hugbúnaðarkerfum.

Veitur segja að með snjallvæðingu mæla verði komið á reglubundnum samskiptum og gagnasöfnun hafin um notkun, afhendingargæði orkunnar og mælitækið sjálft. Gögnum verði safnað á 10 til 60 mínútna fresti, í stað þess að lesa einungis notkunarupplýsingar einu sinni á ári. Þá segir í svari Veitna við fyrirspurn Vigdísar að snjallvæðingin auki og bæti þjónustu á eftirfarandi hátt:

  • Engin áætluð notkun, viðskiptavinir borga fyrir það sem notar er, raunnotkun. Áætlunarreikningar heyra sögunni til.
  • Viðskiptavinir munu ekki lengur þurfa að lesa af mælunum og skila upplýsingum til Veitna.
  • Viðskiptavinir munu geta fylgst náið með orkunotkun sinni og þar með brugðist við öllum frávikum.
  • Snjallvæðing mæla getur hjálpað viðskiptavinum við að lækka orkureikninginn.
  • Auðveldar notendaskipti og skipti á raforkusala.
  • Gerir Veitum kleift að vakta afhendingargæði orku til viðskiptavina, stýra viðhaldi veitukerfa (ástandsstýring) og forgangsraða viðhaldsverkefnum eftir mældum gæðum orkunnar.
  • Eykur möguleika Veitna til að bregðast við þróun rafbílavæðingar en rafbílavæðing hefur í för með sér nýtt álag á veitukerfið sem nauðsynlegt er að vakta og stýra þannig að fjárfestingar í veitukerfunum nýtist sem best.