Lýður Þór Þorgeirsson, sjóðstjóri hjá Gamma, segir að ólíklegt að það takist að ráðast í heildaruppskurð á núverandi fyrirkomulagi banka-, gjaldeyris- og peningamála vegna pólitískrar tregðu. Langskásti millileikur Íslendinga í núverandi stöðu sé því að taka upp aðra mynt. Þetta kemur fram í grein eftir Lýð sem birtist í síðasta tölublaði Viðskiptalífsins.

Í greininni segir Lýður: „Hagkvæmast væri að taka upp aðra mynt í samvinnu við erlent þjóðríki og seðlabanka. Með samvinnu er fyrst og fremst átt við að hið erlenda ríki byði lausafjárlínur sem innlent bankakerfið gæti stutt sig við eftir upptöku hinnar nýju myntar.

Fjölmargar myntir kæmu til greina í því samhengi ef erlendir ráðamenn viðkomandi ríkis tækju vel í, þ.m.t.NOK, CAD, USD, EUR og jafnvel mynt Alþjóða gjaldeyrissjóðsins sem kallast SDR, en ráðamenn AGS hafa á síðustu misserum lagt til stærra hlutverk fyrir reiknieiningu sjóðsins. Kostirnir við að nota mynt sem gjaldgeng er í alþjóðaviðskiptum eru það miklir að ekki ætti að einblína á eða takmarka valið við myntir stærstu viðskiptaþjóða."

Annar möguleiki

„Annar möguleiki er einhliða upptaka annarrar myntar. Með einhliða upptöku á greinarhöfundur við að viðkomandi þjóðríki myndi hafna beinum stuðningi á formi lánalína til innlendra fjármálafyrirtækja án þess þó að setja Íslendingum að öðru leyti stólinn fyrir dyrnar. Til að mæta útflæði úr innistæðum innanlands þyrftu innlendir bankar að semja um langtíma lánalínur frá einkabönkum í viðkomandi löndum gegn veðsetningu eigna (e. covered bonds)," skrifar Lýður Þór.

Í greininni fer Lýður ítarlega yfir stöðu krónunnar, gjaldeyrismál þjóðarinnar og útlistar hugsanlega valkosti. Greinina má lesa í heild í Viðskiptablaðinu, undir skoðanir á vb.is eða með því að elta þennan tengil .