Ímynd Íslands í Finnlandi er mjög jákvæð og íslensk fyrirtæki eiga mikil sóknarfæri sem land fegurðar, gæða og hreinleika samkvæmt niðurstöðum kortlagningu á finnska markaðnum sem unnin var á vegum Íslandsstofu og Utanríkisráðuneytisins . Finnsk-íslenska verslunarráðið hyggst fylgja þessu eftir með því að vera með bás fyrir íslensk fyrirtæki á stórri matarkaupstefnu í Turku í október. Þetta kemur fram á vef Íslandsstofu .

Niðurstöður kortlagningarinnar voru kynntar fulltrúum íslenskra fyrirtækja á fundi Íslandsstofu, Utanríkisráðuneytisins og Finnsk-íslenska viðskiptaráðsins í gær. Þar kynnti Hjörleifur Þórðarson, verkefnisstjóri sem vann kortlagninguna, þrjá þætti kortlagningarinnar: Könnun á vöruútflutningi og þjónustuútflutningi til Finnlands 2004 til 2013 og kannanir á viðhorfum Finna til Íslands og íslenskra afurða.

Athugun fór fram á vöruútflutningi Íslands til Finnlands á árabilinu 2004-2013, þar kom fram að útflutningsverðmætið sveiflaðist all nokkuð á tímabilinu og munar þar mestu um verðsveiflur á loðnumjöli sem vó tiltölulega þyngst í útflutningnum í byrjun tímabilsins (30-50%). Útflutningurinn á föstu verðlagi hefur sveiflast frá upphafi tímabilsins úr tæpum 11 milljónum evra og niður í um 6 milljónir evra á hruntímanum í kringum árin 2008 og 2009. Útflutningsafurðum hefur fjölgað jafnt og þétt og á árinu 2013 var hann orðinn jafn og árið 2004 eða um 11 milljónir evra. Mestu munar um aukinn útflutning á skyri, lýsisvörum og bleikju.

Fyrir liggja tölur frá Hagstofunni um þjónustuútflutning fyrir árin 2009-2012 en tölur fyrir árið 2013 lágu ekki fyrir þegar úttektin var framkvæmd. Á þessu tímabili hefur þjónustuútflutningurinn vaxið ört úr 25 milljónum evra og upp í 38 milljónir evra. Mestu munar um auknar tekjur af ferðaþjónustunn sem stendur fyrir um 80-90% af þjónustuútflutningnum öll árin 2009-2012.

Finnar líta á Ísland sem ímynd fegurðar og gæða, lands heilbrigðs lífsstíls og hreinleika. Því gætu veruleg tækifæri falist í útflutningi vöru og þjónustu sem endurspegla þessi atriði. Snyrtivörur, sjávarafurðir, matvæli, lýsi og tískuvörur eru vöruflokkar sem koma til greina. Útflutningur er reyndar nú þegar hafinn í sumum þessum vörutegundum og fer ört vaxandi (skyr, lýsi, bleikja) eða er að hefjast (snyrtivörur, tískuvörur).

Kortlagninguna má lesa í heild sinni hér .