„Það hefur komið fyrir að við sjáum sama nafnið í nokkrum málum,“ segir Unnur Gunnarsdóttir, forstjóri Fjármálaeftirlitsins (FME). Hún og Sigurveig Guðmundsdóttir framkvæmdastjóri gerðu í morgun grein fyrir rannsóknum eftirlitsins tengdum falli viðskiptabankanna þriggja í október árið 2008. Fram kom m.a. á fundinum að búið er að rannsaka 205 mál og kæra í 66 málum til efnahagsbrotadeildar ríkislögreglustjóra eða embættis sérstaks saksóknara.

Þær Unnur og Sigurveig voru m.a. spurðar að því hversu mörg mál voru tengd einstaka fólki og hvort sömu einstaklingarnir komi fyrir í einhverjum málanna sem hafi bæði verið til rannsóknar og vísað til yfirvalda.

Þær gátu ekki sagt til um það hversu mörg mál tengist hverjum einstaklingi. Í rannsóknum FME var farið allt aftur til ársins 2002 en algengast var að miðað væri út frá árinu 2005.